Takk
Nýja Sigur-Rós platan, "Takk", sem væntanleg er í september er komin á netið. Ég er í þessum töluðu orðum búinn að ná mér í fyrstu lögin af þessari plötu sem ég hef beðið eftir með mikilli óþreyju. Ekki síst vegna heimsóknar minnar í hljóðver þeirra félaga síðasta sumar þar sem ég fékk að heyra brot úr einu lagi sem situr ennþá í mér. Það verður gaman að sjá hvort ég þekki lagið á plötunni. En yfir í gripinn. Fyrsta lagið er intro, bara svona angurvær kynningarkafli sem á líklega að koma manni í stellingar fyrir það sem koma skal. Ég ætla nú að hlusta á lag 2 sem ber hið skemmtilega nafn Glósóli. Spennan er vægast sagt gríðarleg. Jájá Jónsi syngur hér "Hér vaknar þú". Þetta er rólegt lag og ég átta mig ekki alveg á því strax. Á þessu lagi er ekki að marka neinar stefnubreytingar en þetta minnir þó frekar á "Ágætis byrjun" heldur en "O". Nú brýst lagið út og allt brjálað, þetta er flott. Smá kraftur í strákunum hérna. Ég ætla að hlusta á næsta lag en láta síðan gott heita. Það er "Hoppípolla". Píanóspil fer af stað. Mmmmm fallegt. Sólin skín í heiði. Blómin brjótast út. Ég hef pissað í buxurnar. Það er heitt. Þetta er barnalega sætt lag. Æi þetta eru bara snillingar. Það á eftir að taka tíma að ná utan um þessa nýjustu afurð Sigur-Rós manna.