At jú
Ég veit ekki hvort margir hafi velt fyrir sér þessu magnaða fyrirbæri hnerrum. Fyrir þá sem kannast ekki við málið þá eru þetta alveg sjálfkrafa viðbrögð þegar manni kitlar í nefið eða einhver óhreinindi komast í nebbalíus. Þá fer bara eitthvað ferli í gang, maður fer að draga inn andann og grettir sig mjög asnalega. Og á þessari stundu kemur í ljós hvort að hér var á ferðinni "false alarm" eða hvort að ferlið rennur sitt skeið á enda. Ef það fer alla leið þá frussast bæði út úr nefi og munni munnvatn og hor og hafa margir tekið upp á þeim sið að halda fyrir vitin. Þeir hafa væntanlega byrjað á því eftir að hafa frussað á einhvern. Hraðinn á loftinu og öllu klabbinu sem þarna þeysist út úr manni er víst allsvakalegur og nær hugsanlega allt að ljóshraða. Krafturinn í slíkum hnerra varð bersýnilega ljós fyrir mér um daginn er ég sat við borð og borðaði cheerios einn morguninn. Ég fór þá að finna fyrir þessari óumflýjanlegu tilfinningu (ekki ósvipað og fyrir sáðlát) að ég þyrfti að hnerra. Þetta leit ekki vel út þar sem tranturinn var fullur af trefjaríkum og hollum morgunkornshringjum. Ég tuggði því á geysilegum hraða og hafði náð að leysa upp nærri því alla hringina áður en grettan myndaðist í fésinu. Hnerrinn var svei mér öflugur og frussaðist allmikið magn af góssi úr hausnum. Það litla sem eftir sat í munninum dreifðist núna smekklega yfir morgunverðaborðið og peysuna mína. Maður ætti kannski að halda fyrir munninn næst. Svona ættu allir dagar að byrja.