Batman byrjar á morgun
Leðurblökumaðurinn knái mun á morgun taka flikk flakk heljarstökk afturábak þegar nýja myndin hans verður frumsýnd. Í henni fáum við nebblega að skyggnast í fortíð Blaka og kynnumst þannig hvernig hann varð hinn leðurklæddi Leðurblökumaður. Hinn breski Christopher Nolan (Memento, Insomnia) stýrir fjölda eðalleikara í þessari mynd sem hefur verið beðið eftir með mikilli eftirvæntingu því ekki er oft sem þvílíkt hæfileikafólk tekur að sér ofurhetjumyndir. Christian Bale (American Psycho, Equilibrium) mun troða sér í gúmmígallann og dansa leðurblökudansinn og þannig feta í stígvél Michael Keaton, Val Kilmer og George Clooney. Aðrir leikarar eru Katie Holmes, Michael Caine, Gary Oldman, Morgan Freeman, Liam Neeson og Tom Wilkinson sem allir teljast úrvals leikarar og virðist Katie Holmes vera að klífa metorðastigann í Hollywood. Ég ætla að kíkja á þessa mynd á fimmtudaginn og hlakka bara nokkuð til að sjá afraksturinn. Ekki má síðan gleyma að Ísland leikur smá hlutverk í myndinni. Rykið verður allavega dustað af leðurblökudansinum þessa vikuna.