Fíkn
Ég hef á undanförnum árum þurft að glíma við mjög erfiðar fíknir. Ég er ekki mjög stoltur af þeim, ég veit að þetta er afbrigðileg hegðun og það fylgir þessu afbrigðileg hugsun sem þó ég veit ekki alltaf af. Eftir að farið var að selja myndir á svokölluðum DVD staðli hef ég einfaldlega ekki ráðið við mig og eytt hundruðum þúsunda í þessar DVD myndir. Það var vitað að ég væri veikur fyrir, á mínum yngri árum datt ég í svartnætti körfuboltamyndafíknar. Allir aurar sem mér áskotnuðust enduðu í kössum íþrótta- og bókabúða og heltók fíknin mig það mikið að ég var farinn að leita af flöskum út um allar trissur til að fjármagna myndafíknina. Þegar ég var kominn í hvað mest öngstræti ætlaði ég að byrja að selja líkama minn en sem betur fer náði ég áttum áður og leitaði mér hjálpar. Næsta fíkn sem bankaði á dyrnar voru geisladiskar. Ég bar lengi vel út moggann og í hvert sinn sem ég fékk útborgað var ég rokinn í geisladiskabúðina þar sem oft á tíðum ég kom andstuttur og örvæntingafullur. Ég keypti bara eitthvað. Í dag á ég diska með Tinu Turner, Elton John, Leoncie og fleirum sem ég hef keypt þarna um árið. Svona er fíknin stefnulaus og röklaus. Eftir að hafa verið handtekin fyrir að selja lyklakippur á Hlemmi var ég lagður inn á meðferðarheimili fyrir fíkla. Það gekk vel og ég varð frjáls maður. En næsta fíknin var handan við hornið. DVD myndir. Þessi fallegu hulstur, allt þetta aukaefni og krystaltær myndin og hljómgæðin svo hrein. Fyrsta myndin sem ég keypti mér var Devil's Advocate og það var eins og við manninn mælt. Ég hafði selt sálu mína í hönd stafræns miðils. Nú var einnig verslað á netinu og kreditkortareikningarnir hlóðust upp, ásamt DVD myndunum en klósettið heima fylltist fljótt af myndum. Það var þó ég sjálfur sem náði að hemja þessa fíkn og í dag kaupi ég bara myndir sem eru á tilboði eða versla við Play.com sem oft er með góð tilboð. Ég er nýbúin að setja DVD myndirnar í forrit sem heldur utan um það hvaða myndir ég á og hverjar ég lána. Safnið mitt birtist einnig á netinu og geta áhugasamir skoðað það hér Ef fólk vill fá lánað þá tek ég yfirleitt vel í það, sérstaklega ef myndunum er skilað aftur. Boðskapurinn með þessari sögu er: Betri er fugl í skógi en tveir á pönnu.