Loksins er ég töff
Þá er maður kominn í klíkuna og kominn með nýjustu gerð af gsm síma. Ég þótti engan vegin töff með minn 5110 nokia síma og fólk yppti bara öxlum þegar ég sagði þeim að ég gæti hringt úr honum og svarað og að það væri nóg. En það virðist ekki lengur vera hugmyndin á bakvið GSM síma. Þetta snýst um að vera töff með flottan og helst dýran síma. Ég skellti mér á einn svoleiðis þar sem mig dreymir svo um að vera töff. Þetta er Sony-Ericsson 1800gti með beinni innspýtingu. Hann er með innbyggðri myndavél, 800w örbylgjuofni, 6" glasahaldara, GPS tæki, tappatogara, nettengingu, drullosokki, svitalyktareyði og útvarpi. Hann er það lítill að þegar ég ætla að þrýsta á einn hnapp verða yfirleitt svona þrír fyrir barðinu á puttanum. Þannig að ég á mjög erfitt með að hringja og senda sms. En þar sem það skiptir engu máli þá er ég bara þokkalega sáttur. Núna er ég töff. Ef ég þarf að hringja þá laumast ég bara í 5110 kvikindið.