Drasl myndir - Elektra
Það eru til ákveðnar aðferðir við að koma auga á lélegar myndir. Kannski þekkir fólk þessar aðferðir en engu að síður tel ég ástæðu til að minna á þær þar sem margt lélegt ratar regulega í bíóhús og myndbandaleigur. Hef ég til grundvallar myndina Elektra sem virðist hafa allt til brunns að bera sem lélegt. Til að byrja með þá er FM957 að sponsera myndina sem telst nú ekki beint gæðastimpill. Textinn við myndina í Fréttablaðinu er á þessa leið "Svakalega flott ævintýraspennumynd með hinni sjóðheitu Jennifer Garner". Ef vísað er í "flott" og "sjóðheit" þá er oftast um drasl að ræða. Í mogganum stóð síðan um sömu mynd "Frá framleiðendum X-men" en þegar vísað er í framleiðendur frægra mynda þá er viðkomandi mynd dauðadæmd. Bráðum förum við örugglega að sjá setningar á borð við "Sami sviðshönnuður og í Moulin Rouge", "Sami listræni stjórnandi og í Titanic" eða "með hljóðmanninum úr The Matrix". En til að klára alveg að kafsigla Elektra þá hefur hún fengið 34/100 á metacritic.com sem telst ansi slæmt og líka þessi hugmynd að taka persónu úr einni lélegustu mynd síðari ára, Daredevil og að gera sjálfstæða mynd úr henni er bara undarlegt mjög. Þrátt fyrir þetta allt þá má slá því föstu við að hún verður nokkuð vinsæl enda margir sem láta plata sig og hafa gaman af viðbjóði.