The Bachelorette
Ég var svo gríðar heppinn að detta inn í restina af einum áhugaverðasta sjónvarpsþætti síðari ára, The Bachelorette. Í þættinum er ein piparjónka sem fær að velja sér eitt skópar en þangað til fær hún að máta þau allnokkur. Þetta getur orðið all-dramatískt og maður kemst allur í skráargats-fýling á að fylgjast með þessari raunveruleika-sápuóperu. Ég veit ekki hvort að aðrir hafi tekið eftir því hvernig allt er sett upp svo að keppendur verði örugglega ástfangnir upp fyrir haus sem endar svo í mikillri tilfinninga-orgíu og að lokum bónorði. Ég held nebblega að fólk sé hreinlega platað í hjónaband. Eins og í kvöld þá stóð sigurvegari kvöldsins frammi fyrir blómahafi, myndavélum og grenjandi piparjónku. Hvernig líður manni í slíkum aðstæðum? Jú maður er stressaður og örugglega æstur. Greyið Ian hefur haldið að fiðringurinn í maganum væri stjórnlaus ást í garð Merediths. Þegar hann róar sig niður áttar hann sig væntanlega á að hér eru brögð í tafli.