Darwin færi í ljós
Allnokkrir Íslendingar nýta sér þá þjónustu sem stuðlar að sólbrúnku. Maður er svona að velta fyrir sér hvað dregur fólk í þessa ljósabekki og annað slíkt. Það liggur í augum uppi hver ástæðan er, jú til að líta vel út. Það virðist vera í mörgum tilfellum að því sólbrúnni sem maður er, því betur lítur maður út. Það er þó hugsanlegt að þessi útlitslega jákvæðni í garð sólbrúnku eigi sér djúpstæðari orsakir. Allavega ef við lítum til þróunarsögunnar þá hefur það haft mjög hagstæðar afleiðingar fyrir dýr að makast við heilbrigðan einstakling. Afkvæmi tveggja heilbrigðra foreldra er mun líklegra til að lifa af heldur en afkvæmi foreldra þar sem annað eða bæði eru veik. Sjúkdómar hafa t.d. mjög skýr áhrif á útlit fólks, það verður fölt og horað. Útlitið er í raun að segja við dýr í leit að maka: "Ég er veikur, ekki maka þig með mér". Ef þú ætlar að eiga heilbrigð afkvæmi sem eiga að halda uppi genum þínum þá makaru þig ekki við veikan einstakling. Í ljósi þróunarsögunnar er það því augljóst að einstaklingur velur sér sólbrúnan einstakling sem maka því að það segir til um heilbrigði hans. En nú eru sumir að svindla og nota sér ýmsar aðferðir til að koma sér upp brúnku alveg óháð því hve heilbrigðir þeir eru. Það er alveg verið að riðla þróun mannsins. Fólk sem velur þessa leið til að draga að sér hitt kynið virðist þó vel með á nótunum í þróunarfræðunum og maður tekur hattinn niður fyrir því. Darwin sjálfur hefði líklega farið sömu leið, atað í sig brúnkukremi og slengt strípum í hár sitt. En ljóst hár er held ég líka merki um heilbrigði sem er hugsanlega ein ástæða fyrir dálæti karlmanna á ljóshærðum kvenmönnum. Menn hafa þó lengi velt fyrir sér dálæti karlmanna á stórum brjóstum en öfugt við almenna skynsemi þá mjólka stór brjóst ekkert endilega betur. Darwin væri því nokkuð sáttur við eina flatbrjósta.