The Grudge (2004)
Ég hef sjaldan upplifað eins stöðugan straum hrollvekjandi atriða eins og var málið í þessari mynd. Það var akkúrat aldrei tími til að reyna aðeins að róa sig og herða upp hugann fyrir næsta hjartsláttaratriði. Annars er þessi mynd voða svipuð í megindráttum og The Ring þó að söguþráðurinn sé að sjálfsögðu ekki sá sami þá er þetta svona svipuð aðferðafræði. Það er svona svaka mystería í gangi og á meðan er manni brugðið vægðarlaust með oft óvæntum viðbjóði. En það sem þessar japönsku myndir virðast hafa fram yfir þær amerísku er svona stemningin, það er voða lítið um húmor og það er alltaf eins og söguhetjurnar séu algjörlega hjálparvana gegn þeim illu öflum sem herjar á það. Þetta virkar allt mjög vel í The Grudge. Ég var skíthrædur meginhluta myndarinnar og í lokin var ég farinn að hafa töluverðar áhyggjur af hjartanu í mér. Gallinn er þó frekar lummulegur endir og síðan fólk í salnum sem fór ekki vel í mig. Fólk hló mikið af því að það var orðið svo hrætt að það réð ekki lengur við það (breytti óttanum í hlátur, lélegt og augljóst trix), það talaði einnig mikið (augljóslega til að reyna að beina athyglinni að einhverju öðru heldur en myndinni) og síðan varð ég vitni að því oftar en einu sinni að fullvaxta karlmenn hreinlega öskruðu af hræðslu (og hlógu síðan eftir á til að gera minna úr því hve hræddir þeir voru, litlu greyin). Ég segi því við ykkur sem eruð að hugsa um að fara á hana en eigið til að verða hrædd á svona hrollvekjum, ekki fara!
***