Rólegheit í Hafnarhúsinu
Það var róleg stemning í Hafnarhúsinu á þriðja kvöldi Airwaves. Er við mættum á svæðið var Bang Gang að spila og léku vægðarlaust lög af plötunni "Something Wrong". Þau tóku líka gamlan slagara og var það hressandi. Védís Hervör söng með Barða sem var hress að vanda og hélt stemningunni uppi með því að segja "tja tja tja" í míkrófóninn. Á eftir BG var það Tenderfoot sem leika tregabundna gítarmúsík með kántrí ívafi. Nokkuð góður söngvari og ágætis músík. Að lokum var það Norsarinn Magnet sem mætti á sviðið. Þegar hann labbaði inn á sviðið héldu flestir að þetta væri enn einn rótarinn að testa græjurnar. En þegar fólk fattaði að hér var á ferðinni aðalnúmer kvöldsins vaknaði það og klappaði. Ég mundi lýsa tónlist hans sem Damien Rice undir áhrifum frá Sigur-Rós. Hann er ofboðslega kammó þessi gaur og hógvær, fer lítið fyrir honum. Hins vegar er hann með einhverja mögnuðustu rödd sem ég hef heyrt og fengu áhorfendur að kynnast því í gær. Fólk var þó ekki vel með á nótunum og það fækkaði ansi í áhorfendahópnum á meðan hann spilaði. Hann var frekar stutt miðað við auglýsta dagskrá en ég var alveg sáttur við þetta. Mér fannst mjög gaman að sjá hann, enda mikilvægur.