Lokakvöld Airwaves
Þær voru ekki af óæðri endanum hljómsveitirnar sem hlýtt var á í gær á Airwaves. Fyrst voru það Leaves sem léku nýtt efni. Bassinn var hátt stilltur hjá þeim félögum og sá maður fólk hristast um allt gólf auk þess að öll líffæri fengu sinn skerf af titringi. Þetta nýja efni hljómaði nokkuð vel og ljóst að þeir eru að gera fína hluti. Maus stigu því næst á stokk og rokkuðu allt til andskotans, bæði með nýjum lögum og slögurum á borð við Musick, My favourite excuse og Égímeilaðig sem var síðasta lag þeirra. Gífurlegur kraftur í þeim og klárlega með betri live böndum sem Ísland á. Keane menn mættu með eigin græjur og mjög virðulegan rótara, gamlan mann sem klæddist kennarabrúnum fötum og skartaði klút um hálsinn. Hann var afar hressandi. Það var orðin töluverð rófustappa þegar þeir stigu á svið og stemning góð. Það ætlaði allt um koll að keyra þegar Your Eyes open fór í gang og söngvarinn sýndi vel æfð dansspor á meðan. Þetta var alveg prýðilegt hjá þeim en kannski ekki með bestu tónleikahljómsveitum heimsins. Þetta er meira sona músík sem gaman er að hlusta á í góðum græjum. Við félagarnir yfirgáfum svæðið þegar fólk klappaði Keane menn upp í þeim tilgangi að komast inná Gaukinn þar sem hinir mögnuðu Shins ætluðu að spila. Sú aðgerð reyndist árangursrík og komust við kaldir inn á Gaukinn eftir um 25 mínútur í röð sem var orðinn ansi löng í annan endann þegar við gengum inn sigri fagnandi. The Stills voru að klára þegar við komum og ansi troðið var inni. Það myndaðist þó smá pláss þegar Stills hættu og þegar The Shins byrjuðu að spila Kissing the Lipless vorum við á ágætis stað í salnum. Það er skemmst frá því að segja að The Shins voru magnaðir og myndaðist gríðar stemning í salnum og fólk var óvænt vel með á nótunum, söng með og hoppaði. Aðalmaður Shins, James Mercer ver ákaflega snyrtilegur og hógvær á meðan hljómborðsleikarinn hélt uppi stemingu með smá gamanmáli. Þessi Mercer er alveg undralegur, ekki bara gífurlega hæfileikaríkur tónlistarmaður og ótrúlegur söngvari heldur líka með útlit kvikmyndastjörnu. The Shins og Sahara Hotnights er það sem stendur upp úr á þessari mögnuðu tónlistarhátíð. Ég hvet fólk sem gaman hefur af skemmtilegri og góðri músík að tjekka á þessum böndum, þetta er það heitasta í dag.