Rugl
Ofboðslegt rugl er að vera að fara niður í miðbæ um miðjar nætur. Bíða í röð, lag af snjó á haus og herðum, væflast um í troðningi, leitandi af einhverju sem engin veit hvað er, anda að sér eiturgufum, aftur út, annar staður, aha engin röð, ráfa um í djammstöppunni, allir að leita, hrista búkinn, líta á klukkuna, það snjóar sennilega ennþá, mér er illt í hálsinum, mér svíður í augunum, ræð ég ekki hvort ég borga í lífeyrissjóð?, ræð ég ekki hvort ég anda að mér tóbaksreyk? Jú þú getur verið úti í snjónum og búið til engla, látið snjóa yfir þig þangað til þú hverfur, neinei fer bara í leigubíl, geng út, piltur kýldur, árásarmaðurinn er síðhært fífl, líklega æstur því hann vill ekki borga í lífeyrissjóð, langaði sennilega bara heim til að hlusta á plötu með Strumpunum, skil hann vel, geri þó engum mein, óbeinar reykingar er ein tegund ofbeldis, áfengið hlýjar mér, er ég sá eini sem vill fara heim? Nei, heimfarar hafa myndað röð eftir leigubíl, andskotinn, bíð bara hér, annað hvort skæður flösufaraldur eða íslensk veðrátta, leigubílstjórinn er fínn, hann bað Guð að geyma mig, ég þakkaði honum fyrir, ég er settur í geymslu hjá Guði, hér er ekki kalt, hér er ekkert ofbeldi, engin snjór, engar raðir, engin glanstónlist, ég er uppi í rúmi og löngu hættur að hugsa um þetta því ég er sofnaður. Guð geymi þá sem urðu úti í nótt.