Fjandinn laus
Það er allt að verða vitlaust í íslensku útvarpi. Ekki nóg með að albesti morgunþáttur sögunnar sé hættur þá er einfaldlega búið að taka X-ið 9.77 úr sambandi ásamt Skonrokk. Þetta þýðir það að grislingar eins og ég sem hafa gaman af öðru en sykursætu poppi og Bylgjutónlist höfum einfaldlega ekki í neinn væng að vernda er kemur að útvarpi. Þetta er náttúrulega alveg makalaust sérstaklega í ljósi þess sem kemur fram á Pappakassi.net að vinsældir þessara stöðva eru töluverðar, sérstaklega hjá ungum karlmönnum. Tvíhöfði hafði til að mynda um 15-20.000 hlustendur á hverjum morgni. Ástæða þessara geldingar á útvarpsmarkaðnum er einfaldlega sú að þessar stöðvar hafa ekki átt upp á pallborðið hjá auglýsendum og því hefur markaðurinn einfaldlega tortímt þeim. Málið snýst því bara um pening og peningurinn virðist eiga heima á Bylgjunni og FM, en sú síðarnefnda telst víst tónlistarstöð. Ókei, allt í lagi. Ég á svosum ekki eftir að gráta mikið út af X-inu en ég mun grenja mikið vegna fráhvarfs Tvíhöfða sem hafa ósjaldan hresst mann við á hráslagarlegum morgnum. Það er hreint óbærileg hlustun að fá ekki að heyra meira í Jóni Gnarr sem gömlum perra að hringja í smásálina. Það er líka skrítin tilhugsun að magnaðar hljómsveitir á borð við Radiohead, Muse, Coldplay, System of a Down o.fl. munu eftir þetta nánast hverfa úr íslensku útvarpi. Það sem er hins vegar verst við útvarp í dag og það sem mun aðeins aukast eftir þessa aðgerð íslenska útvarpsfélagsins er hvað útvarpsmenn ráða akkúrat engu um þá tónlist sem spiluð er. Þá komum við aftur að því sem allt virðist snúast um í dag, peningar. Það sem er vinsælt hjá stóru fyrirtækjunum og selur, það er spilað. Það efni sem gefið er út af minni fyrirtækjum, selst ekki jafn mikið og fer því minna fyrir það einfaldlega heyrist ekki nema í mjög litlum skömmtum. Ég vil meina það að allir útvarpsmenn sem eftir standa hafa akkúrat engan áhuga á tónlist þó þeir kannski haldi það. Það er ekki áhugi að gleypa bara það sem er vinsælt, það er skammsýni. Ef maður hefur áhuga á einhverju þá horfir maður ekki bara á yfirborðið á því, maður kafar lengra. Það sem við þurfum er útvarpsstöð sem gefur starfsmönnum frjálsræði í að kafa undir yfirborðið. Þá þarf að sjálfsögðu að ráða einstaklinga sem hafa djúpan áhuga á tónlist sem væri hægt að treysta til að færa manni eitthvað áhugavert og gott efni. Fyrr mun ég dauður liggja heldur en að fara að hlusta á FM eða Bylgjuna en það eru einmitt þær stöðvar sem ÍÚ ætlar að styrkja. Dólgar.
Það er því brýn ástæða að minna á Endurvarpið en þar má heyra sumt að því sem hefur verið kippt úr útvarpinu ásamt vænum skammti af öðru sem heyrist hvergi annars staðar. Einnig bendi ég á Shoutcast.com en þar er samansafn ýmissa netútvarpa sem hægt er að hlusta á með Winamp.