Lokaprófum fagnað
Nágrannabloggarar hafa verið að lýsa próflokadjömmum sínum og ætla ég ekki að vera nein undantekning í þeim efnum. Tel ég mig hafa toppað þá allflesta með hreint miklum glæsibrag. Það er nefninlega þannig að þegar stórum áfanga er náð þá vill maður fagna því með sem glæsilegstum hætti og peningar verða í þeim tilvikum undantekning. Þannig er mál með vexti að eftir próf brá ég undir mér góðum skóm og hélt glaður af stað í átt að Bónus. Ég gekk tignarlega í gegnum rafmagnsknúna hurð og fólk vissi hreinlega ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Ég arkaði um ganga Bónus ákveðnum skrefum og staldraði loks við morgunkornsrekkann. Annað munnvikið bærðist ögn upp á við og augun skimuðu leitandi yfir alla þessa litríku morgunakornspakka. Þarna sat hann eins og ætlaður mér, apinn litli mændi á mig með svip sem sagði "Ég er þinn, kysstu mig". Það var ekki um annað að ræða, pakki af Coco Pops var gripinn og settur í gula körfu ásamt tveim ísköldum fernum af sullandi Nýmjólk. Er ég sleppti vörunum á færibandið var múgurinn tekinn að ókyrrast og fólk var greinilega hneykslað á þessum djörfu kaupum. Ég lét það ei á mig fá og mælti stoltur "Var að klára prófinn" og nikkaði agreiðslustúlkunni sem glápti á mig með undrunarsvip. Hendur hennar skulfu þegar hún renndi pakkanum í gegnum vöruskannarann og fólk í kring var orðið mjög æst. Margir foreldrar héldu fyrir augu barna sinna svo að þetta yrði ekki hvöt af svipaðri hegðun þeirra. En það er nú bara þannig að þegar maður klárar próf þá lætur maður allt flakka og gerir allt til að gera fögnuðinn sem glæsilegastan. Morguninn eftir graðkaði ég í mig þrem heilum diskum af Coco Pops og drapst síðan morgunkornsdauða yfir barnaefninu. Djöfull er maður grand á því.