Ótrúleg heppni
Það var ótrúleg heppni sem átti sér stað í gær er dregið var úr jólahappdrætti Endurvinnslunar. Í pottinum var eitt nafn og því var spennan hreint ólýsanleg. Hún var í reynd það rafmögnuð að öryggið fór af höfuðstöðvum Endurvinnslunar og því tafðist drátturinn um tuttugu mínútur. Dráttarvélin var þó sett í gang að lokum en eitthvað gekk henni nú illa í fyrstu að krækja í þann eina miða sem var í pottinum en það hafðist eftir um 10 mínútna skarkala. Vélin ofhitnaði eftir þetta og var sett á verkstæði. En eins og sést á myndinni þá var það Gunnar nokkur Gunnarsson sem hreppti hnossið og þessi myndarlegi jólapakki var sendur á býli hans í Kópavoginum með ábyrgðarpósti í gærkvöldi. Hann á því von á heimsókn frá rauðklæddum manni er tekur að rökkva. Í pakkanum er diskur með norska tónlistarmanninum Magnet sem þykir einn sá efnilegasti í dag og hef ég lýst honum sem hæfilegri blöndu af Damien Rice og Sigurrós. Diskurinn On your side er einn besti diskur ársins þannig að Gunninn ætti ekki að vera svikinn. Gunnar er 176 cm á hæð, vegur 75 kg og þykir rammur að afli. Hans helstu áhugamál eru skautdans, að rígja ær, hlusta á Bylgjuna og útivist. Hann á ættir að rekja austur á Reykholt þar sem afi hans Theódór B. Gunnlaugsson var prestur á árunum 1867-1901. Gunnar er tónelskur maður í meira lagi og á ekki langt að sækja þann áhuga. Faðirbróðir hans er enginn annar en Rúnar Júlíusson rokkarinn góðkunni að sunnan. Ég átti samtal við Gunnar eftir að ljóst var að vinningurinn var hans. "Ég átti ekki von á þessu. Þetta er mikill heiður og kemur sér vel þar sem heyskapurinn er að byrja. Ég á von á að þessi diskur fari í spilun í fjósinu því kýrnar hafa svo gaman að Magnet". Já ég vil óska Gunnari til hamingju með þetta og jafnframt fyrir að koma í veg fyrir að dráttarvélin þyrfti að draga úr tómum potti.