Anchorman: the legend of Ron Burgundy (2004)
Það er hressarinn mikli Will Ferrell sem fer með aðalhlutverkið í þessari grínmynd og skrifar jafnframt handrit ásamt leikstjóranum.
Ég skemmti mér alveg konunglega yfir þessari mynd og fyndnari mynd hef ég ekki séð lengi. Ég er algjörlega ósammála gagnrýnanda fréttablaðsins þegar hann segir "Ef bíó á að leysa einhverjar lífsgátur þá er þessi mynd auðvitað tímaeyðsla. Það er ekkert merkilegt í henni". Þeir sem fara á grínmynd með Will Ferrell eiga ekki að ímynda sér að í henni feljist lausn á einhverjum lífsgátum og ég tala nú ekki um gamanmyndir almennt. Dumb and Dumber er einhver besta gamanmynd allra tíma, hvaða lífsgátur leysti hún? Kannski að bjóða fólki sem innbyrt hefur mikið magn laxerolíu ekki upp á biluð klósett! Þessi rök gagnrýnandans eru því alls ekki við hæfi hér. Og síðan að það er ekkert merkilegt í henni, því er ég algjörlega ósammála. Mynd sem fær fólk til að hlæja jafn mikið og ér varð vitni að í gær hefur augljóslega eitthvað merkilegt upp á að bjóða alveg eins og dramamyndir sem fá mann til að grenja. Eitthvað hljóta menn að vera að gera merkilegt í þessum tilvikum. Það er bara eitt atriði sem mér fannst töluvert ósmekklegt í myndinni og varðaði það hund en annað í myndinni var snilld. Ég mæli hiklaust með Anchorman.
***