Styttist í Airwaves
Á miðvikudaginn hefst tónlistarveislan er kennd er við íslenskar loftbylgjur. Tilhlökkun er töluverð en sjálfur mæti ég ekki á svæðið fyrr en á fimmtudeginum en þá troða sænsku skutlurnar í Sahara Hotnights upp á Nasa. Á undan þeim eru Ensími, Úlpa og Botnleðja. Þessar sænsku gellur eru afskaplega hressar og leika gríðar sprækt rokk og gefa bræðrum sínum í Hives ekkert eftir í fjöri. Á föstudaginn er það síðan Hafnarhúsið sem togar en þar koma fram Eivör, Bang Gang, Tenderfoot og Magnet. Bang Gang og Magnet er það sem laðar sérstaklega að. Magnet er norskur snillingur sem leikur músík sem er ægifögur, doldið í anda Sigur-Rós. Á laugardeginum eru The Shins settir í forgang en þeir ætla að vekja menn með hressum tónum á Gauknum. Ef maður er hress þá reynir maður að ná Keane og Maus í Hafnarhúsinu. Sunnudagurinn er síðan hvíldardagur hátíðarinnar.