Goldfrapp - Supernature (2005)
Dúettið Goldfrapp þrykkti nýlega frá sér sinni þriðju plötu en þessi hljómsveit gerði snilldarverkið "Felt Mountain" árið 2001 en fór síðan yfir í diskómúsík öllum að óvörum á annari plötu þeirra "Black Cherry". Það var svolítið súrt að sjá eftir dreymandi tónlistinni sem þau sköpuðu á frumburði sínum en það verður að segjast eins og er að með komu Goldfrapp í diskópoppið hefur sú tónlistarstefna orðið mun áhugaverðari.
Þau halda nefninlega áfram á Supernature á því sem þau byrjuðu á Black Cherry (á!). Black Cherry var ágæt plata en samt langt frá þeirri fyrstu í gæðum. Önnur tilraun þeirra við rafdiskóið tekst mun betur upp og það er sannarlega gaman að hækka vel í þessum hressandi tónum. Þetta er fjári grípandi stöff og ég er ekki frá því að Goldfrapp séu að bjarga poppinu frá geldingu. Eins og vanalega fylgja einnig rólegri lög í kaupbæti og þau eru bara ekta Goldfrapp, ljúfmeti. Það ætti engum að leiðast Ride a white horse eða You never know.
8/10