Finding Neverland (2004)
Það fer hver að verða síðastur að sjá þessa gæðamynd sem m.a. er tilnefnd sem besta myndin á Óskarsverðlaunahátíðinni í mars. Annars er nú alveg ótrúlegt hvað Johnny Depp lítur alltaf út fyrir að að vera ekki eldri en tvítugur, en maðurinn er í raun 41 árs! Þannig má alveg segja að hann sé Pétur Pan Hollywoods.
En þessi mynd sem sagt fjallar um höfund Péturs Pan og hvernig hann fær hugmyndina að ævintýrinu. Ég hef nú aldrei haft smekk fyrir þessu Pétur Pan, kannski orðin of gamall. Það hafði þó engin áhrif á mig því þessi mynd hefur þann eiginleika að grípa mann með í för alveg óháð því hve gamall maður er. Hún er einstaklega vel leikin, valin maður í hverri stöðu en það kemur þó á óvart að sá sem stelur senunni er hinn 12 ára Freddie Highmore sem leikur einmitt Peter sem ævintýrið ku vera byggt á. Hann fer ótrúlega með kröfuhart hlutverk og skyggir í raun á Depp og Winslet sem þó standa fyrir sínu. Það er sorglegt að þessi mynd skuli strax vera komin í sal 5 og aðeins sýnd einu sinni á dag í Smárabíói. En fólk virðist frekar vilja glansmyndirnar sem eru galtómar að innan. Hæst glymur í tómri tunnu. Að lokum þá má minnast á að þessi mynd á ansi vel við þar sem réttarhöld standa nú yfir Michael Jackson. En höfundur Péturs Pan lenti skv. myndinni einmitt í svipuðum aðstæðum og MJ, það var litið á hann hornauga fyrir að kjósa að leika sér tímunum saman með börnum. Ekki veit ég neitt um sekt að sakleysi MJ en eitt er víst að fólk er fljótt að draga verstu ályktanir, sérstaklega ef fólk er doldið öðurvísi.
Finding Neverland, fín ræma.