Ofbeldi og krystallar
Um daginn horfði ég á tvær myndir, önnur reyndar heimildarmynd. Annars vegar var það tryllir Davids Cronenberg, A History of Violence með Viggo Mortensen og Ed Harris og hins vegar What the bleep do we know? sem er leikin/teiknuð heimildarmynd. Violence var nokkuð fín, ég var samt ekkert dolfallinn. Hún var alveg þónokkuð spennandi og vel framkvæmd en ekkert eitthvað sem situr í manni. Bleep fannst mér svo upp og ofan. Það er verið að fjalla um mjög áhugaverðar hugmyndir í myndinni eins og skammtafræði, efni, trú, siðfræði, tilgang lífsins og sálfræði. Aðal hamar myndarinnar lemur mann með þeirri hugmynd að hugsanir manns hafa áhrif á allt í kringum mann, meira að segja eigin líkama. Við erum ekki áhorfendur af því sem gerist í kringum okkur heldur höfum við áhrif á allt. Hvert og eitt erum við Guðir með óendanlega möguleika. Ein fræg rannsókn sem drepið var á sýndi til dæmis að vatnskrystallar breyttu um lögun eftir því hvaða skilaboð voru skrifuð á flöskurnar sem vatnið var í. Ef það stóð til dæmis "Takk" myndaðist reglulegt munstur í krystalinn en ef það stóð eitthvað eins og "Ég ætla að drepa þig" myndaðist óreglulegt mynstur. Einkennilegt. Þónokkrir sérfræðingar tjáðu sig um þessi mál og var gaman að hlusta á þá. Það sem eyðilagði myndina var hinn leikni hluti sem mér fannst óþarfur.