The Machinist (2004)
Keypti mér þessa mynd á markaði í Perlunni um daginn. Christian Bale leikur aðalhlutverkið í myndinni og það er hrikalegt að sjá hann. Hann grennti sig mjög mikið fyrir þessa mynd og er eins og anorexíu sjúklingur. Í raun ekki við hæfi barna.
En Bale leikur Trevor Reznik, vélaverkamann nokkurn sem að eigin sögn hefur ekki sofið í ár. Hann léttist að auki með hverjum deginum. Afar undarlegir atburðir fara að gerast í kringum hinn granna vélamann og minnir myndin svolítið á einhverjar David Lynch myndir. En þó að atburðarrásin sé mjög súrrealísk þá verður myndin aldrei það súr að maður gefist upp, heldur þvert á móti gerir mann spenntari. Endirinn fannst mér síðan afar fullnægjandi, útskýrir ekki allt en þó nóg til að maður geti túlkað hina skrítnu atburðarrás á eigin veg. Mér fannst þetta alveg þrælmögnuð mynd, flott og dularfullt andrúmsloft og skemmtileg tónlist. Christian Bale, hvað getur maður sagt annað um hann en snillingur.