Eyrun
Hvernig hafa eyrun mín það? Fínt takk fyrir. Tónlistarárið 2006 hefur farið nokkuð rólega af stað. Það helsta sem hefur komið út það sem af er ári eru plötur frá Belle & Sebastian, The Strokes, Richard Ashcroft og Arctic Monkeys. Af þessu hef ég mest hlustað á Bellu og Sebastían en platan ber nafnið The Life Pursuit. Hún hljómar skemmtilega, bara argasta poppplata sem kemur manni í léttan fíling. Annars er það íslensk plata sem er að heilla mig mest þessa dagana. Það eru drengirnir í Ampop sem gáfu út My Delusions fyrir jól. Ég fékk þessa plötu í jólagjöf og núna er hún að síjast inn í haus og í ljós kemur alveg dúndur flott poppplata. Minna stundum á Parachutes með Coldplay en þó ekkert að stæla einn né neinn. Hliðhollir aðilar geta sótt sér megahittarann My Delusions og hið magnaða Clown af þessari plötu. Einnig er nýja platan frá Garðbæingunum í Dikta (Hunting for Happiness) að gera nokkuð góða hluti inn í eyrunum mínum.