Klassík: The Shawshank Redemption (1994)
Það er ótrúlegt að hugsa til þess að þessi mynd Frank Darabont hafi ekki fengið nein óskarsverðlaun á sínum tíma þrátt fyrir 7 tilnefningar. Það var Forrest nokkur Gump sem sankaði í staðinn að sér gullstyttum. Það er að mínu mati alveg klárt hvor þessara mynda er betri, Sjávsjenkarinn tekur Gumpinn í nebbaling. Shawshank er einfaldlega með langbestu myndum sem ég hef séð. Ég man ennþá hvar ég var þegar ég sá myndina fyrst og nokkurn veginn hvernig mér leið eftir hana en það var einhvers konar vonartilfinning sem hríslaðist um kroppinn þegar Red og Andy hittust að lokum á ströndinni í Zihatanejo. Það sem er svona einstakt við þessa mynd er bæði sú von sem hún kveikir í brjósti fólks um að það sé hægt að yfirstíga hið óyfirstíganlega og líka að það eru fáar myndir sem lýsa langtíma vináttu milli tveggja karlmanna án þess að í myndinni séu bílaeltingarleikir (punktur tekinn úr gerð myndarinnar). Svo þó að myndin sé tæknilega fangelsismynd er umfjöllunarefni hennar hafið langt yfir einhverja múrveggi og rimla og það er það sem er svo frábært við myndina. Von og vinátta, eru til einhver betri orð? Það er mjög hollt að horfa á þessa mynd svona á fjögura ára fresti til að peppa mann upp. Allt við þessa mynd er klassískt.
"Get busy living, or get busy dying"
-Andy Dufresne