Klassík: Leaving Las Vegas (1995)
Þetta er ein af þeim myndum sem ég man alltaf eftir þegar ég fór á hana í bíó. Reyndar var sú bíóferð einnig eftirminnileg fyrir þær sakir að við félagarnir svindluðum okkur inn á aðra mynd á eftir þessari. Það var myndin Broken Arrow sem er nú ekkert klassísk. En Leaving Las Vegas fjallar um ástarsamband tveggja einstaklinga sem eru ekki beint vel liðnir af þjóðfélaginu. Nicholas Cage leikur alkóhólistan Ben sem hefur þá einu löngun að drekka sig í hel- og jú að eyða síðustu dögunum með vændiskonunni Seru leikna af Elizabeth Shue. Að mínu mati er þetta ein besta ástarsambands mynd sem ég hef séð. Þarna eru tveir einstaklingar sem eiga það sameiginlegt að eiga ljótan djöful að draga, fella hugi saman og taka hvort öðru eins og þau eru. Shue og Cage eiga bæði besta leik ferils síns, Cage fékk Óskarinn en Shue var tilnefnd. Furðulegt hvað maður sér Shue ekkert lengur í myndum. Þetta er sorgleg, fyndin, ljót, falleg, krúttleg og rómantísk mynd sem engin ætti að láta fram hjá sér fara.