The Woodsman (2004)
Það eru hjónin Kevin Bacon og Kyra Sedgwick sem fara með aðalhlutverkin í þessari fyrstu mynd sem ég sá á kvikmyndahátíðinni. Myndin fjallar um mann sem er búinn að afplána dóm fyrir kynferðisbrot gagnvart stúlkum og hvernig honum gengur að fóta sig og takast á við fortíðina.
Kevin Bacon er engin snilldarleikari. Þetta er hins vegar án efa hans langbesta hlutverk og einnig hans langbesta frammistaða. Maður vorkennir persónunni mikið þrátt fyrir að vita um hans glæpi. Þessir glæpir eru reyndar ekki útlistaðir neitt frekar þannig að maður veit aldrei hvað hann hefur í raun gert. Þó að myndin sé kannski ekki alltaf sú trúverðugasta þá er þetta engu að síður fín bíómynd um efni sem ekki allir myndu leggja í að gera mynd um. Kynferðisbrotamenn, sérstaklega gegn börnum eru einhverjir erfiðustu og trufluðustu einstaklingar þjóðfélagsins. Skilaboð myndarinnar eru þau að það er alltof einfalt að kalla þessa einstaklinga bara skrímsli og vilja ekki meira um þá vita. Fín mynd og ljóst að veislan fer vel af stað.