Lost in Translation (2003)
Það eru Bill Murray og Scarlett Johansson sem fara með aðalhlutverk í þessari mynd Sofiu Coppola.
Ég hafði aldrei sérstaklega mikinn áhuga á að sjá þessa mynd þrátt fyrir að hún hafi á sínum tíma fengið frábæra dóma. Ástæðan, jú ég bjóst við að lítið gerðist í myndinni og ég sá nokkurn vegin fyrir mér hvernig hún væri. Þannig að hún varð alltaf varamynd þegar farið var út á vídjóleigu og sat því alltaf eftir. Ástralskur félagi minn mældi hins vegar eindregið með að ég myndi sjá hana og í gær sá ég leik í hendi. Í ljós kom að hún er ekki leiðinleg og þrátt fyrir að lítið "gerist" þá er þetta litla í raun mjög stórt og sætt. En myndin fjallar um vináttu (ástarsamband?) tveggja einstaklinga sem hittast fyrir tilviljun í þeirri mjög svo ópersónulegu (allavega í myndinni) borg Tokyo. Þessi Scarlett Johansson heillaði mig alveg upp úr skónum með leik sínum og sjarma. Ég mundi ekki segja að þetta sé snilldarmynd en ef maður hefur áhuga á einhverju aðeins öðruvísi þá er þetta fínt á könnuna.