Munkurinn sem seldi sportbílinn sinn
Ég var að ljúka við að lesa þessa bók sem skrifuð er af Robin S. Shauna nokkuri. Ég verð að segja eins og er að ég hef sjaldan lesið eins fræðandi bók á ævi minni. Jújú vissulega hef ég rennt í gegnum einhverja sálfræðidoðranta sem uppfullir voru af upplýsingum sem koma sér vel fyrir þá sem vilja elta frama í sálfræði.
Þessi bók er ekki svo ólík sálfræðidoðranti nema að hún beinir athygli manns inn á við, í manns eigin sálfræði og hvað hægt er að gera til að líf manns einkennist af meiri orku, tilgangi og jafnvægi.
Sjálfur er ég ekkert voða opin fyrir sjálfshjálparbókum um að bæta líf mitt. Mér finnst ég einfaldlega ekki þurfa á slíku að halda. Að auki hef ég lítinn áhuga á dulspkekilegum aðferðum við að bæta "andann" eða "sálina".
Þó að bókin innihaldi óhóflega mikla vísun í það "andlega" eins og "andlegan þroska" þá eru margar aðferðirnar og hugmyndirnar ekkert annað en leiðbeiningar fyrir leikmenn í að tileinka sér hugræna atferlismeðferð. Þú ert það sem þú hugsar og hugsanir eru ekki eitthvað sem bara koma. Þú getur stjórnað þeim. Ýtt út neikvæðum hugsunum fyrir jákvæðari og hagkvæmari hugsanir.
Ef maður fyrirgefur notkunina á þessum orðum sem vísa í "anda" eða "sál" getur maður fengið heilmikið út úr þessari bók. Hægt er að skipta þessum orðum út einfaldlega fyrir hugann enda ekkert umdeilt um tilvist hans.
Í bókinni er ekki bara hellingur af augaopnandi heimsspekilegum pælingum heldur eru líka aðferðir til að tileinka sér ýmsa siði sem maður hafði ekki spáð í áður. Svona eftir á að hyggja þá finnst mér megin boðskapur bókarinnar (en þó alls ekki sá eini) að njóta einföldu hlutanna í lífinu. Það eru þeir sem gera okkur raunverulega hamingjusöm.