Superman Returns (2006)
Ofurmennið er mætt aftur í Superman Returns, framhaldi Brian Singer af Superman II frá 1980. Það er ekki hægt að neita því að Ofurmennið lítur vel út í þessari mynd. Það er helsti kostur myndarinnar að hún er áferðafalleg og jú hún er hin fínasta afþreying. Hún geldur hins vegar fyrir þá staðreynd að í samanburði við gömlu myndirnar hefur hún alls ekki sama þokka. Bæði er leikur ekki í sama gæðaflokki og dramatíkin sem reynt er að skapa nær ekki lengra en að vera væmni. Brandon þessi Routh er einstaklega vélrænn og einhæfur leikari og tekst engan veginn að gera sannfærandi persónur úr Clark Kent eða Superman. Stráksi lítur vel út í Superman búningnum en leikur hans er ekki upp á marga fiska. Christopher Reeve heitinn lék þessa ólíku kappa einfaldlega mikið mikið betur. Svo set ég spurningamerki við hve ungir leikarar eru fengnir til að leika aðalpersónurnar þar sem þessar persónur voru mun fullorðinslegri í myndum sem áttu að gerast á undan.
Superman Returns er ágætis skemmtun en fyrir þá sem þekkja gömlu myndirnar er hún frekar máttlaus tilraun til að ná upp sömu stemningu.