Blóðbönd (2006)
Ég var nú í kvöld viðstaddur forsýningu á nýrri íslenskri kvikmynd sem heitir Blóðbönd. Svo er að þakka manni sem sérhæfir sig í pappakössum. Frægt fólk var á svæðinu, m.a. Ingvar E Sigurðsson og Benedikt Erlingsson.
Ég hafði séð treilerinn fyrir þessa mynd kvöldið áður og leist mér hreint ekkert á hann. Þetta virtist týpísk íslensk mynd, þar sem ekkert gerist og allt voða tilgerðarlegt. Sú forspá gekk nokkurn veginn eftir því þetta reyndist mjög svo týpísk íslensk mynd. Persónurnar eru ótrúverðugar og óskiljanlegar og því gat ég ekki haft samúð með neinum af þeim, nema þá kannski litla stráknum sem mér fannst einna trúverðugastur. Þegar maður horfir á dramatískar myndir vill maður geta sett sig í spor persónana svo að myndin hafi einhver áhrif á mann. Þetta var ekki að virka í myndinni. Ég veit ekki en mér finnst oft þegar ég horfi á íslenskt leikið efni að ég sé að horfa á leikara fara með línurnar sínar en ekki að ég sé að horfa á raunverulegt fólk. Þessi tilfinning herjaði á mig mestan part myndarinnar. Annars myndi ég frekar skella skuldinni á lélegt handrit heldur en lélegan leik. Það sem er jákvætt við myndina er að hún er stutt og Hilmir Snær á stutta en á óskiljanlegan hátt bráðfyndna innkomu. Sem er kannski sorglegt að í einu íslensku myndinni sem Hilmir Snær leikur ekki í, stelur hann senunni.