The Life aquatic with Steve Zissou (2005)

Bill Murray og leikstjórinn Wes Anderson (Rushmore, The royal Tenenbaums) sameinast í þriðja sinn og í þetta sinn fara þeir meðal annars undir sjávarmál með sinn sérstaka húmor.
Ég man ekki nógu vel eftir Rushmore en The Royal Tenenbaums fannst mér allt að því frábær, allavega mjög góð. Ég hafði heyrt að þessi væri ekki eins góð. Það er smá síðan ég sá þessa mynd en hún náði allavega að heilla mig og að mínu mati stendur hún Tenenbaums ekki langt að baki. Það er að venju furðulegur en skemmtilegur húmor sem ræður ríkjum í skrítnum heim sem Anderson skapar, í þetta sinn um haffræðing (Steve Zissou) sem fer ásamt föruneyti í svaðilför í leit að hákarli sem ku hafa étið vin hans í síðustu ferð. Við sögu koma mikið af stórskemmtilegum persónum og atburðarrásin verður á köflum ansi súrrealísk. En hverjum er ekki sama á meðan maður skemmtir sér eins vel og ég gerði. Ég verð síðan að minnast á hápunkt myndarinnar sem jafnframt var sá dramatískasti en þar kemur lagið Starálfur með Sigur-rós við sögu. Frábært atriði og ég mæli með þessari filmu.
