V for Vendetta (2006)
Vaffið er mætt í bíó og nýtur stuðnings ekki ómerkari aðila en Natalie Portman, John Hurt og Stephen Rea.
Þessi mynd kom mér skemmtilega á óvart. Þetta er alls ekki þessi týpíska hasar- eða ofurhetjumynd þar sem ofbeldi og hasar er í fyrrúmi og annað ef til vill aðeins uppfyllingarefni á milli hasarsins. Hasarinn er settur í bakgrunn í þessari mynd á meðan persónurnar og sagan fá kastljósið. Mér fannst söguþráðurinn mjög áhugaverður og spennandi og hélt myndin mér allan tíma spenntum og ánægðum nema þá kannski rétt í byrjun. Eðal leikarar glæða síðan þessa fínu sögu lífi þar sem Natalie Portman sýnir enn og aftur hversu hæf leikkona hún er. Myndin fjallar í raun um hvernig hennar persóna þróast í gegnum atburðarrásina sem Vaffið síðan keyrir. Portman vann mig algjörlega á sitt band og með leik sínum skapaði hún persónu sem maður fann til með. Ég mæli eindregið með þessari mynd sem óvæntri og öðruvísi hasarmynd.